Borgarbókasafnið í Gerðubergi býður um þessar mundir upp á frábæra sýningu í safninu; Þín eigin bókasafnsráðgata. Sýningin er í raun ratleikur sem reynir á samvinnu, þjálfar margs konar læsi og þrautalausnir. Að verkefninu standa Ævar Þór Benediktsson, Embla Vigfúsdóttir og Svanhildur Halla Haraldsdóttir.
Skólahópum og öðrum gestum býðst að koma á safnið og leysa ráðgátur þar sem bókavörðurinn Gerðubergur kemur við sögu.
HÉR er hægt að nálgast frekari upplýsingar um Þína eigin bókasafnsráðgátu og bóka heimsókn.
Lestrarátakshópur Lions á Íslandi styrkti Borgarbókasafnið með veglegum styrk sem varð til þess að hægt var að bæta við námsefnispakka í anda bókasafnsráðgátunnar. Námsefnið er unnið af námsefnishöfundum Fróðleiks, Kristjönu Friðbjörnsdóttur og Ásu Marin Hafsteinsdóttur og er aðgengilegt öllum á námsefnisveitunni 123skoli.is.
Námsefnið byggir á sýningunni Þín eigin bókasafnsráðgáta. Nemendur eru í þetta sinn sendir af stað í ratleik til að rannsaka hvarf Ævars Þórs Benediktssonar rithöfundar. Til að komast að lausn málsins þurfa nemendur að lesa sér til skilnings, rannsaka, grúska og leysa gátur er tengjast tungumálinu, íslenskum bókmenntum og skáldsagnapersónum.