top of page
lokafrett.png
Höfundur heimtur úr háska!
Ekki alls fyrir löngu - 18:23

Fréttastofunni hafa borist þær gleðifréttir að Ævar Þór er
kominn í leitirnar heill á húfi. Hann situr nú í flugvél á
leiðinni frá Akureyri til Reykjavíkur.

Fréttastofan náði tali af honum úti á velli og lýsti hann
atburðarás síðustu þriggja daga.

Ég var að ganga niður Laugaveginn og eins og svo oft
áður er mér litið inn um búðarglugga. Inn á milli
lundabangsa sé ég andlitið á Einherja. Allir sem hafa
lesið Ofurhetjuvíddina vita að það boðar ekki gott.
Áður en ég næ að koma mér í burtu sér hann mig og ég
byrja að hlaupa. Ég hleyp niður Laugaveginn, að tjörninni og í átt að BSÍ, öskrandi á hjálp en ekki einu sinni endurnar kipptu sér upp við hjálparbeiðnina. Þá allt í einu kemur reiðmaður á hesti sem var ljós en með grátt fax. Reiðmaðurinn hægði á sér og rétti fram hönd sína. Ég greip í hana og eins og í kúrekamynd og vippaði mér upp á hestinn fyrir aftan reiðmanninn, þetta var mjög flott en ég missti reyndar farsímann minn í þessu áhættuatriði,
“ útskýrir Ævar.

Reiðmaðurinn tók á sprett og bjargaði Ævari frá Einherja. Eftir dágóða reið sá Ævar að þeir voru búnir að stinga Einherja af og reyndi þá að biðja reiðmanninn um að fara með sig heim. En hann virtist ekkert heyra heldur reið áfram sem leið lá inn í Mosfellsbæ og þaðan norður yfir heiðar.

 

Í þrjá sólarhringa stoppuðu þeir ekkert, það var eins og maðurinn þyrfti hvorki að borða, hvíla sig né komast á salerni. Ævar var hins vegar þreyttur og svangur og svaf hluta af leiðinni án þess að detta af baki. Hann var svo ánægður að hafa sloppið undan Einherja að honum fannst allt í lagi að leyfa manninum að fara bara heim til sín og Ævar myndi redda sér þaðan heim.

Svo gerist það þegar við vorum að komin inn í Hörgárdal að ég sé vegaskilti sem vísar á Myrká. Það var þá sem ég átta mig. Blóðið fraus í æðum mínum þegar ég lyfti örlítið hattinum sem reiðmaðurinn var með. Þar var ekkert hár eða skinn, bara hvít höfuðkúpa. Ég öskraði og henti mér af hestinum. Sem betur fer var djákninn ekkert að skipta sér af mér og ég náði að hlaupa upp á veg og húkka mér far með ferðamönnum til Akureyrar. En nú langar mig heim,“ endaði Ævar frásögnina sína og kvaddi okkur enda styttist í flugið.

Það var nú gott að þessi ástsæli höfundur er kominn heim í öruggt skjól eftir að hafa sloppið frá Einherja og Djáknanum á Myrká.

bbs-logo-layer-svarthvitt-transparent-90.png
download_edited.png
Frodleikur.png
Horse
Faxi á góðri stundu.
bottom of page